Fögnuðu stærri velli með góðum sigri

Providence Park í Portland í upphafi leiks í kvöld. Hann …
Providence Park í Portland í upphafi leiks í kvöld. Hann rúmar nú 25 þúsund áhorfendur. Ljósmynd/ThornsFC

Dagný Brynjarsdóttir og samherjar hennar í Portland Thorns komust í kvöld í annað sæti bandarísku atvinnudeildarinnar í knattspyrnu þegar þær léku loksins fyrsta leikinn á heimavelli á keppnistímabilinu.

Portland tók á móti Chicago Red Stars og sigraði 3:0 en Dagný og félagar höfðu spilað fyrstu sex leikina á tímabilinu á útivöllum þar sem völlur félagsins, Providence Park, var í endurbyggingu. Hann rúmar nú rúmlega 25 þúsund áhorfendur og í kvöld voru rétt tæplega 20 þúsund manns á vellinum og gríðarleg stemning.

Dagný lék allan leikinn á miðjunni hjá Portland og hefur nú verið í byrjunarliðinu í fimm leikjum í röð eftir að hafa komið inn á í fyrstu tveimur í vor. Hún var sem kunnugt er í barneignafríi á árinu 2018 en varð bandarískur meistari með Portland árið 2017.

Margaret Purce skoraði tvö fyrri mörkin með stuttu millibili um miðjan fyrri hálfleik og Marissa Everett innsiglaði sigurinn með marki rétt fyrir leikslok. Portland er komið með 14 stig í öðru sætinu en liðið tapaði aðeins einu sinni í útileikjunum sex sem liðið var búið að spila. Washington Spirit er á toppnum með 16 stig.

Ekkert frí þrátt fyrir HM

Keppni í deildinni heldur áfram í júnímánuði þrátt fyrir að heimsmeistaramótið hefjist í Frakklandi á föstudaginn kemur. Margir leikmenn úr deildinni verða þar með hinum ýmsu landsliðum en félagslið þeirra þurfa einfaldlega að leika án þeirra á meðan. Portland er m.a. án nokkurra bandarískra landsliðsmanna um þessar mundir og í næstu leikjum, einnig án kanadíska landsliðsfyrirliðans Christine Sinclair og brasilísku landsliðskonunnar Andressinha sem eru á leið á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert