„Hvar eru apagrímurnar núna?“

Frásögn Morgunblaðsins frá leiknum fræga, fimmtudaginn 15. október 1981.
Frásögn Morgunblaðsins frá leiknum fræga, fimmtudaginn 15. október 1981. Morgunblaðið

„Ég var svo reiður að eftir að ég hafði skorað seinna jöfnunarmarkið hljóp ég til velsku landsliðsmannanna og hrópaði: „Hvar eru apagrímurnar núna helv... ykkar?“ Þetta sagði gamla kempan Ásgeir Sigurvinsson í viðtalið við Morgunblaðið í kjölfar þess að íslenska landsliðið vann það frábæra afrek að gera 2:2 jafntefli gegn Wales í undankeppni heimsmeistaramótsins 1982. Ásgeir var harðákveðinn í því að láta þá velsku fá fyrir ferðina fyrir meint grín þeirra á okkar kostnað.

Það hefur sennilega enginn farið varhluta af farsanum í kringum tyrkneska landsliðið í knattspyrnu undanfarinn sólarhring. Tyrknesku leikmennirnir voru óhressir með miklar tafir og langa öryggisleit í Leifsstöð og virtist facebookvefur Knattspyrnusambands Íslands varla ætla að standa af sér atlögu fokillra tyrkneskra netverja þegar ónefndur maður otaði uppþvottabursta í stað hljóðnema að fyrirliða Tyrkja í miðju viðtali.

Um annað hefur síðan ekki verið rætt. Tyrkneskir blaðamenn voru yfir sig hneykslaðir á því að ekki var töluð tyrkneska á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í morgun og síðar í kvöld hellti Senol Gü­nes, landsliðsþjálfari Tyrkja, sér yfir Íslendinga og sagði gestrisnina vera þjóðinni til minnkunar! Tyrkir eru reiðir fyrir leikinn í undankeppni EM á morgun og sennilega harðákveðnir í að láta Íslendinga fá fyrir ferðina.

„Íslendingar verða hafðir að öpum“

Þegar Ísland heimsótti Wales í undankeppni HM 1982 fauk hressilega í leikmenn íslenska landsliðsins þegar tveir leikmenn Wales birtust í dagblaði þar í landi með apagrímur undir yfirskriftinni: „Íslendingar verða hafðir að öpum í Swansea.“

Hvort það hafi verið ætlunarverk velska blaðamannsins að reita Íslendinga til reiði fylgir ekki sögunni og sennilega var þetta ósköp saklaust, en þetta vakti gríðarlega reiði á Íslandi. Móðgunargjarnir Íslendingar mættu tvíefldir til leiks, náðu jafntefli og gerðu út um HM-vonir Wales!

Apagrímurnar sem gerðu Íslendinga illa á sínum tíma.
Apagrímurnar sem gerðu Íslendinga illa á sínum tíma.

„Guðni [Kjartansson] landsliðsþjálfari dró upp dagblað og sýndi okkur. Í blaðinu var stór mynd af tveimur velskum landsliðmönnum, Micky Thomas og Carl Harris, með apagrímur og undir stóð: Við gerum íslendingana að öpum í kvöld,“ sagði hetja íslendinga þetta kvöldið, Ásgeir Sigurvinsson við Morgunblaðið þann 16. október 1981.

„Við urðum auðvitað öskureiðir, gamla góða Íslendingastoltið kom upp í okkur og við urðum staðráðnir í að láta þá éta þessi orð ofan í sig. Það má því segja að þessi fíflaskapur í þeim hafi átt einhvern þátt í því að Wales á nú litla möguleika á því að komast áfram í heimsmeistarakeppninni.“ Ásgeir, eins og kom fram að ofan, skoraði bæði mörk Íslands í frægu 2:2 jafntefli og þeir velsku fengu svo sannarlega að fá fyrir ferðina.

Það hefur komið á daginn að maðurinn með uppþvottaburstann var alls ekkert Íslendingur og þá hefur Isavia fullyrt að öryggisleitin ógurlega hafi einfaldlega verið samkvæmt reglum og í raun mun styttri en Tyrkir halda fram. Það skyldi þó engu að síður aldrei fara svo Emre Belözoglu, fyrirliði Tyrkja, geri út um EM-vonir okkar á Laugardalsvellinum annað kvöld og hlaupi til Íslendinganna öskrandi: „Hvar eru uppþvottaburstarnir núna helv... ykkar?“

Munu Tyrkir eiga síðasta orðið?
Munu Tyrkir eiga síðasta orðið? AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert