Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, hefur blandað sér inn í umræðuna um meðferðina á tyrkneska landsliðinu á Keflavíkurflugvelli, en á Facebook-síðu sinni gagnrýnir hann framkomuna.
Eins og greint var frá í gær tók það langan tíma fyrir leikmennina að komast í gegnum vegabréfaskoðun og samtals um þrjár klukkustundir að komast í gegnum flugvöllinn. Þá veifaði einhver uppþvottabursta að fyrirliða liðsins þar sem hann gekk framhjá blaðamönnum í flugstöðinni.
Í færslunni segir Çavuşoğlu að framkoman gagnvart landsliðinu sé óásættanleg út frá diplómatískum og mannréttindalegum sjónarmiðum.
Stuðningsmenn tyrkneska liðsins eru heldur ekki sáttir með langan afgreiðslutíma í Keflavík eða uppþvottaburstann. Hafa reyndar margir talið að þar sé um klósettbursta að ræða. Höfðu nokkur þúsund athugasemdir verið skrifaðar við nýjustu færslu KSÍ á Facebook og miður fallegum kveðjum látið rigna yfir knattspyrnusambandið og Íslendinga.