Rúnar í Meistaradeildina?

Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skagfirðingurinn Rúnar Már Sigurjónsson virðist vera að ganga til liðs við FC Astana í Kasakstan ef marka má fjölmiðla þar í landi. Rúnar lék síðast með Grasshopper en hafði tekið þá ákvörðun að breyta til og yfirgefa Sviss. 

FC Astana er ekki gamalt félag en það var stofnað 2009 og tók upp nafnið FC Astana árið 2011. Félagið er engu að síður stórt og heimavöllur liðsins rúmar 30 þúsund áhorfendur. Velgengnin hefur verið mikil en liðið hefur fimm sinnum orðið landsmeistari og þrívegis bikarmeistari. 

FC Astana verður á meðal þátttakenda í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Þar hefur liðið leikið síðustu árin og komst í riðlakeppnina árið 2016. Í fyrra féll liðið úr keppni gegn Dinamo Zagreb 0:3 samanlagt en hafði áður slegið út danska liðið Midtjylland sem gefur kannski einhverja mynd af styrkleika liðsins. 

Rúnar er 28 ára gamall og hefur verið þrjú ár í Sviss hjá Grasshoppers og St. Gallen og var áður þrjú ár í Svíþjóð hjá Sundsvall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert