Meistararnir slógu heimamenn úr leik

Megan Rapinoe skoraði bæði mörk Bandaríkjanna.
Megan Rapinoe skoraði bæði mörk Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkin urðu í kvöld annað liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta. Ríkjandi heimsmeistararnir slógu heimamenn í Frakklandi úr leik með 2:1-sigri í París. 

Bandaríkin komust yfir strax á fimmtu mínútu. Megan Rapinoe tók þá aukaspyrnu á kantinum og sendi fyrir markið, en boltinn fór framhjá öllum og í hornið fjær. Það reyndist eina markið í fyrri hálfleik. 

Rapinoe var aftur á ferðinni á 65. mínútu. Tobin Heath gaf fyrir markið og Rapinoe mætti á ferðinni og kláraði af öryggi af stuttu færi. Wendie Renard minnkaði muninn með föstum skalla á 81. mínútu en nær komst Frakkland ekki. 

Bandaríkin mæta Englendingum í undanúrslitum í Lyon næsta þriðjudag kl. 19. Bandaríkin hafa unnið til verðlauna á öllum sjö heimsmeistaramótum sem haldin hafa verið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert