Einn möguleikinn er að koma heim

Heimir Guðjónsson, þjálfari HB.
Heimir Guðjónsson, þjálfari HB. Ljósmynd/Facebook-síða HB

Heimir Guðjónsson og lærisveinar hans í HB leika til úrslita í færeysku bikarkeppninni í knattspyrnu annað kvöld þegar þeir mæta Vikingi í úrslitaleik á þjóðarleikvanginum í Þórshöfn.

HB, sem fagnaði færeyska meistaratitlinum í fyrra á fyrsta tímabilinu undir stjórn Heimis, fékk gullið tækifæri til að vinna tvöfalt en HB tapaði fyrir B36 í dramatískum úrslitaleik þar sem úrslitin réðust í vítakeppni eftir að B36 hafði þurft að leika tveimur leikmönnum færri í framlengingunni.

„Við vorum ótrúlegir klaufar í bikarúrslitaleiknum í fyrra og hentum titlinum frá okkur síðustu metrunum. Vonandi höfum við lært af þeirri reynslu. Við erum að  fara að mæta góðu og reyndu liði þar sem margir leikmenn hafa unnið titla. Ég reikna með hörkuleik tveggja jafnra liða. Við höfum mætt Víkingi þrisvar sinnum á tímabilinu og höfum unnið tvisvar og tapað einu sinni. Allt voru það hörkuleikir,“ sagði Heimir Guðjónsson í samtali við mbl.is.

Heimir Guðjónsson og strákarnir hans leika til úrslita í bikarnum …
Heimir Guðjónsson og strákarnir hans leika til úrslita í bikarnum á morgun. Ljósmynd/Facebook-síða HB

Það er veik von hjá Heimi og strákunum hans að verja meistaratitilinn þegar fimm umferðum er ólokið í færeysku úrvalsdeildinni en HB er í fjórða sæti, níu stigum á eftir toppliði B36.

„Við erum í sjálfu sér ekki búnir að afskrifa titilinn en það er aldrei gott ef þú þarft að fara að stóla á aðra þegar þú ert í keppni um að vinna eitthvað. Þú vilt hafa þetta í þínum höndum en tap á móti KÍ í byrjun mánaðarins varð þess valdandi að þetta er komið úr okkar höndum. En það eru fimmtán stig eftir í pottinum og við munum að sjálfsögðu halda áfram að berjast meðan við eigum von,“ sagði Heimir.

Hefur rætt við HB um nýjan samning

Heimir framlengdi samning sinn við HB undir lok síðasta tímabils og rennur samningur hans út við félagið eftir tímabilið. Spurður út í framhaldið sagði Heimir:

„Ég er búinn að vera að ræða við stjórn HB um að gera nýjan samning og svo sjáum við til hvernig það gengur. Tímabilið er enn þá í gangi en þegar samningi lýkur þá veltir þú því fyrir þér hvaða möguleikar eru í stöðunni. Einn af möguleikunum er að koma heim en á móti kemur að okkur fjölskyldunni hefur liðið ákaflega vel hér í Færeyjum. Hér er gott að vera og deildin er alltaf að verða betri,“ sagði Heimir, sem hefur meðal annars verið orðaður við Val en samningur Ólafs Jóhannessonar við Hlíðarendaliðið rennur út í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert