Þeir voru mjög skipulagðir, sagði hetja heimsmeistaranna

Oliver Giroud í baráttu við Ragnar Sigurðsson á Laugardalsvellinum í …
Oliver Giroud í baráttu við Ragnar Sigurðsson á Laugardalsvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Olivier Giroud reyndist hetja heimsmeistara Frakka í sigrinum gegn Íslendingum í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í kvöld.

Giroud skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 66. mínútu og hann skoraði þar með sitt 37. mark fyrir franska landsliðið.

„Þeir voru mjög skipulagðir í varnaleik sínum og við áttum í erfiðleikjum að finna lausnir í sóknarleik okkar. Við vorum hins vegar traustir í okkar varnarleik. Í seinni hálfleik vissum við að við þyrftum að vera beinskeittari og setja þá undir pressu. Það tókst og við hefðum getað bætt við öðru marki,“ sagði Giroud við franska fjölmiðla eftir leikinn.

„Það er alltaf ánægjulegt að skora fyrir landsliðið. Þessi sigur gefur okkur kleift að hafa örlögin í okkar hendi og markmiðið hjá okkur er að vinna riðilinn. Við fáum Tyrkland í heimsókn á mánudaginn og við höfum harma að hefna gegn Tyrkjunum,“ sagði Giroud en Frakkar töpuðu fyrir Tyrkjum 2:0 í fyrri leiknum.

Giroud hefur aðeins fengið að spila samtals í 19 mínútur með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og spurður hvort það hafi verið erfitt að finna taktinn sagði hann;

„Fæturnir eru fínir og mér leið mjög vel í leiknum. Ég þekki minn líkama en ég er 33 ára gamall. Ef þjálfarinn þarfnast mín á mánudaginn þá verð ég hundrað prósent klár,“ sagði Giroud, sem átti góðan leik fyrir heimsmeistaranna í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert