Vissum að við þyrftum að vera þolinmóðir

Clément Lenglet sækir að Arnóri Sigurðssyni.
Clément Lenglet sækir að Arnóri Sigurðssyni. AFP

Clément Lenglet miðvörður franska landsliðsins og Barcelona var að vonum sáttur með sigurinn gegn Íslendingum í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Við vissum þegar við komum hingað að í vændum væri erfiður leikur með mikilli líkamlegri baráttu. Íslendingarnir gerðu okkur erfitt fyrir. Þeir voru þéttir fyrir og það var erfitt að brjóta þá á bak aftur. Við vissum að við þyrftum að vera þolinmóðir,“ sagði Lenglet við franska fjölmiðla eftir leikinn en Frakkar urðu í kvöld fyrsta liðið til að vinna Íslendinga í leik í undankeppni EM eða HM frá því í júní 2013.

Olivier Giroud skoraði sigurmark Frakka úr vítaspyrnu en þessi öflugi framherji Chelsea hefur reynst franska landsliðinu dýrmætur í gegnum árin. Hann hefur lítið sem ekkert fengið að spreyta sig með Chelsea á leiktíðinni eða í samtals 19 mínútur í átta leikjum Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

„Við erum mjög ánægðir fyrir hann. Giroud er vinnusamur og er okkur afar gagnlegur. Það var virkilega gaman að sjá hann hamingjusaman eftir að hann skoraði,“ sagði Lenglet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert