Írar misstu af dýrmætum stigum í dag þegar þeir máttu sætta sig við markalaust jafntefli gegn Georgíumönnum í Tbilisi en þjóðirnar mættust þar í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu.
Írar eru í hörðum slag við Danmörku og Sviss um tvö sæti í lokakeppni EM 2020, og um leið getur þessi riðill tengst íslenska landsliðinu og möguleikum þess í keppninni. Þurfi Ísland að fara í umspil eru talsverðar líkur á að mótherji þar yrði það þessara þriggja liða í D-riðli sem ekki kemst beint á EM.
Írar eru nú með 12 stig á toppnum en hafa leikið 6 leiki af 8 og eiga báða keppinautana eftir, Sviss á útivelli á þriðjudaginn og síðan heimaleik við Danmörku í lokin.
Danir eru með 9 stig eftir 5 leiki og Svisslendingar eru með 8 stig eftir aðeins 4 leiki en þessi tvö lið mætast einmitt í Danmörku síðar í dag og sá leikur hefur gríðarlegt vægi í baráttunni um EM-sætin.
Georgía er síðan með 5 stig og Gíbraltar er án stiga og marka í D-riðlinum.