Rasismi stærra vandamál á Englandi

Krasimir Balakov telur að kynþáttafordómar og rasismi séu ekki vandamál …
Krasimir Balakov telur að kynþáttafordómar og rasismi séu ekki vandamál í Búlgaríu. AFP

Krasimir Balakov, þjálfari búlgarska landsliðsins í knattspyrnu, er ósáttur með umræðuna sem hefur átt sér stað fyrir landsleik Búlgaríu og Englands sem fram fer í Sofiu á morgun í undankeppni EM. Mikið hefur verið rætt um hugsanlegt kynþáttaníð sem leikmenn enska liðsins gætu hugsanlega orðið fyrir eftir að Raheem Sterling varð fyrir kynþáttaníði í Svartfjallalandi í undankeppni EM í mars.

Hluti af Vasil Levski-vellinum í Sofiu verður lokaður fyrir stuðningsmenn vegna atvika sem áttu sér stað í leikjum Búlgaríu gegn Kosovo og Tékklandi. Þar gerðust búlgarskir stuðningsmenn sekir um kynþáttaníð en Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, hélt fund með leikmönnum sínum fyrir leikinn til þess að búa þá undir hugsanlegt kynþáttaníð.

Þetta hefur ekki farið vel í búlgarska fjölmiðla og sendi formaður knattspyrnusambands Búlgaríu kvörtunarbréf til UEFA vegna málsins. Balakov notaði hins vegar blaðamannafund liðsins til þess að tjá sig um málið. „Það eina sem ég get og ætla að segja um þetta mál er að ég tel að það sé ekkert vandamál hér,“ sagði þjálfarinn í samtali við fjölmiðla.

„Í búlgörsku 1. deildinni eru margir leikmenn með mismunandi þjóðerni og húðlit. Ég tel þetta ekki vera jafn stórt vandamál hér og á Englandi sem dæmi. Það hafa komið upp atvik tengd rasisma í öllum stærstu deildum Englands, það hefur ekki gerst í Búlgaríu. Rasismi er stærra vandamál á Englandi en í Búlgaríu,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert