Hinn 19 ára gamli Elías Rafn Ólafsson var keyptur til Midtjylland í Danmörku frá Breiðabliki á síðasta ári. Elías lék vel með U18 ára liði Midtjylland áður en hann var lánaður til Aarhus Fremad í dönsku C-deildinni.
Elías hefur leikið afar vel með liðinu og er Morten Mølkjær, þjálfari Aarhus Fremad, hæstánægður með markmanninn unga. Hann spáir því að Elías sé framtíðarmarkmaður íslenska landsliðsins.
„Hann er 201 sentímetri og getur hoppað hátt. Þú sérð ekki marga markmenn með slíka yfirburði í loftinu. Hann er aðeins 19 ára og aðeins of léttur en hann getur bætt á sig í vetur með því að styrkja sig,“ sagði Mølkjær í samtali við Jótlandspóstinn.
„Elías er of góður til að spila með U19 ára liðinu og það er gaman að sjá hann spila fullorðins fótbolta. Hann er að blómstra hérna og hann verður bara betri,“ bætti hann við.
„Hann varði þrisvar sinnum ótrúlega vel á móti Vejgaard í síðasta leik og við höfum bara fengið sex mörk á okkur í 13 leikjum og þrjú markanna komu í sama leiknum. Það segir allt um stöðuleikann,“ sagði Mølkjær enn fremur.
Elías æfir þrisvar í viku hjá Midtjylland, þar sem aðstæðurnar hjá Aarhus Fremad bjóða ekki upp á fulla atvinnumennsku. Hann er samt sem áður ánægður hjá félaginu.
„Andrúmsloftið hjá félaginu er mjög gott og ég hef notið þess að vera hérna. Draumurinn er að spila í einni af fimm stærstu deildum Evrópu en núna einbeiti ég mér að því að spila eins vel og ég get fyrir Aarhus Fremad og vonandi komast í aðallið Midtjylland. Auðvitað vil ég spila með landsliðinu í framtíðinni líka,“ sagði Elías.
Aarhus Fremad er í toppsæti síns riðils í C-deildinni með 32 stig eftir 14 leiki og hefur Elías níu sinnum haldið hreinu.