„Ég er sáttur við stöðu okkar núna. Við byrjuðum ekkert voðalega vel en hrukkum svo í gang. Við höfum unnið sjö heimaleiki í röð og ekki tapað í langan tíma, það er auðvitað jákvætt,“ sagði knattspyrnumaðurinn Kjartan Henry Finnbogason í samtali við Morgunblaðið.
Kjartan er markahæsti leikmaður dönsku B-deildarinnar með ellefu mörk í sextán leikjum fyrir Vejle, sem er í þriðja sæti. Liðið á tvo leiki til góða á Fredericia sem er í toppsætinu með 35 stig, þremur stigum meira en Kjartan og félagar. Fredericia hefur leikið átján leiki og Vejle sextán.
„Við erum farnir að skilja þjálfarann aðeins betur. Hann er rúmensk goðsögn sem talar ekki stakt orð í ensku né dönsku. Við erum með túlk og það var svolítið erfitt í byrjun, þar sem við erum líka með fullt af nýjum leikmönnum frá hinum ýmsu löndum og að vera ekki með tungumálið upp á tíu hjálpaði ekki til að byrja með. Við eldri leikmennirnir eru búnir að taka það að okkur að hjálpa hinum og það hefur gengið þokkalega vel. Við skiljum hver annan betur,“ sagði Kjartan.
Hallgrímur Þormarsson, eldri bróðir Kjartans, lést 27 .október, aðeins 41 árs að aldri. Kjartan og fjölskyldan hans hafa því gengið í gegnum mjög erfiða tíma.
„Það hefur verið mjög erfitt og ég hugsa að ég sé ekki alveg búinn að gera mér grein fyrir þessu enn þá. Það er frekar stutt síðan þetta gerðist og þetta var auðvitað mikið áfall. Það koma jól og afmælisdagar sem verða erfiðir. Þetta er reynsla sem ég óska engum. Ég og fjölskyldan munum reyna að vera þéttari saman og hugsa vel um hvert annað,“ sagði Kjartan, sem spilaði og skoraði gegn Fremad Amager í dönsku 1. deildinni sex dögum eftir andlát bróður síns.
Sjáðu viðtalið í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins.