Ótrúlega jafn fallslagur verður útkljáður í dag

Arnór Smárason og samherjar í Lillestrøm berjast fyrir lífi sínu …
Arnór Smárason og samherjar í Lillestrøm berjast fyrir lífi sínu í úrvalsdeildinni í dag þegar þeir mæta Sarpsborg. Ljósmynd/LSK

Arnór Smárason og samherjar hans í Lillestrøm eru eitt af sex liðum sem eru í harðri fallbaráttu í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en úrslitin ráðast í lokaumferðinni í dag.

Ekkert lið er fallið  fyrir síðustu umferðina, sem er afar óvenjulegt, og Sarpsborg, sem er í 11. sæti af 16 liðum, er  tveimur stigum fyrir ofan botnliðið Ranheim og gæti því hæglega farið niður um deild.

Sarpsborg, Strømsgodset, Lillestrøm og Tromsø eru öll með 29 stig en Mjøndalen og Ranheim sitja í fallsætunum tveimur með 27 stig. Þriðja neðsta liðið þarf að fara í umspil um áframhaldandi sæti í deildinni.

Staða Mjøndalen og Ranheim er að sjálfsögðu verst en bæði lið þurfa sigur til að geta haldið sæti sínu í deildinni. 

Leikir liðanna í lokaumferðinni kl. 17 í dag eru sem hér segir:

Lillestrøm - Sarpsborg
Kristiansund - Strømsgodset
Tromsø - Stabæk
Rosenborg - Ranheim
Mjøndalen - Vålerenga

Sú óvenjulega staða gæti komið upp að liðin sex myndu öll enda með 30 stig og þá myndi markamismunur ráða úrslitum. Þar munar ekki heldur miklu á liðunum og hvert mark sem skorað verður í þessum fimm leikjum getur því hæglega haft úrslitaáhrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert