Hollendingurinn Bernio Verhagen situr nú í dönsku fangelsi eftir að hafa svindlað sér inn á samning hjá knattspyrnuliðinu Viborg, sem landsliðsmarkvörðurinn Ingvar Jónsson leikur með.
Eftir að Verhagen samdi við Viborg, að því er virtist með milligöngu umboðsskrifstofunnar Stellar Group, hefur komið á daginn að ferilskrá hans sem atvinnumanns í knattspyrnu var fölsuð og allt hans mál er eitt stórt svindl.
Sendir voru falsaðir tölvupóstar í nafni Stellar Group, sem kom hvergi nærri málum Verhagens og komið hefur á daginn að auk Viborg fengu dönsku félögin Lyngby, Næstved og Hobro einnig pósta um þennan öfluga leikmann. Hans meinta umboðsskrifstofa kvaðst jafnframt vera með sambönd í Kína og Verhagen yrði fljótt seldur þangað fyrir stórfé.
Fölsuð meðmæli frá Marc Overmars, fyrrverandi leikmanni Ajax og Arsenal, voru lögð fram og umboðsmaðurinn sem sá um samningana kvaðst vinna náið með umboðsmanni Gareth Bale.
Viborg samdi við leikmanninn án þess að sjá hann nokkurn tíma í leik en hann átti að hafa leikið síðast með Audax Italiano í Síle. Fljótlega kom í ljós að hæfileikar hans með fótboltann voru í engu samræmi við ferilskrána sem kynnt hafði verið fyrir forráðamönnum danska félagsins.
Hann mun hafa leikið með neðrideildarliðum í Hollandi þar til ótrúlegt ferðalag hans á milli félaga hófst snemma á þessu ári. Verhagen samdi við lið í Moldóvu, Suður-Afríku og Síle en dvöl hans hjá hverju liði fyrir sig var aðeins örfáir mánuðir, og svo virðist sem hann hafi ekki náð að spila einn einasta leik frá því hann yfirgaf hollenska neðrideildarfélagið Dungen í janúar 2019.
Christian Toftemark, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Vestur-Jótlandi, staðfesti við bold.dk að Verhagen hefði verið handtekinn, hann sæti í varðhaldi til 16. desember og hefði verið ákærður fyrir svindl og jafnframt sé hann grunaður um rán, ofbeldi og hótanir en dönsk fyrrverandi kærasta Verhagens hefur m.a. komið fram í dönskum fjölmiðlum og sagt frá ofbeldisfullri framkomu hans.