Ekki hægt að bera Milan saman við Verona

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skrifaði undir lánssamning við AC Milan sem …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skrifaði undir lánssamning við AC Milan sem gildir út tímabilið. mbl.is//Hari

Knattspyrnukonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir skrifaði í gær undir samning við ítalska stórliðið AC Milan en hún kemur til félagsins á láni frá Breiðabliki. Berglind fór út að skoða aðstæður hjá ítalska stórliðinu í síðustu viku og leist afar vel á allt sem AC Milan hafði upp á að bjóða.

„Þetta er mjög spennandi klúbbur og ég er mjög spennt fyrir þessu,“ sagði Berglind Björg í samtali við mbl.is en AC Milan leikur í A-deildinni á Ítalíu og er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig eftir fyrstu tíu leiki sína, ellefu stigum minna en topplið Juventus, en AC Milan á leik til góða á Juventus.

Berglind þekkir ágætlega til á Ítalíu eftir dvöl hjá Verona árið 2017 þar sem ekki var staðið við þar til gerða samninga.

„Ég held að það sé ekki hægt að bera þessi tvö félög saman ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég ákvað að fara út núna og skoða aðstæður áður en ég tók ákvörðun um framhaldið, eitthvað sem ég gerði ekki síðast. Ég skoðaði til dæmis íbúðina þar sem að ég mun dvelja og þetta leit allt saman mjög vel út og öll æfingaaðstaðan er til fyrirmyndar.“

Framherjinn mun klára tímabilið með AC Milan og snúa aftur til Íslands um miðjan maí. Hún mun því missa af fyrstu þremur leikjum tímabilsins með Breiðabliki, gegn FH, Selfossi.

„Ég mun skrifa undir lánssamning sem gildir út tímabilið. Síðasti leikur tímabilsins er í kringum 15. maí minnir mig og ég reikna með því að spila hann og koma svo heim áður en glugginn lokar. Ég missi því af fyrstu leikjum tímabilsins með Breiðabliki en ætti að koma heim í fínu standi,“ bætti framherjinn við.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði 10 mörk í sjö leikjum í …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði 10 mörk í sjö leikjum í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð og vakti athygli stórliða fyrir framgöngu sína. Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert