Skoðar aðstæður hjá tyrknesku félagi

Viðar Örn Kjartansson er eftirsóttur.
Viðar Örn Kjartansson er eftirsóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðar Örn Kjartansson, framherji rússneska knattspyrnufélagsins Rostov, heldur til Tyrklands á morgun þar sem hann mun skoða aðstæður hjá ónefndu úrvalsdeildarliði þar í landi en þetta staðfesti Ólafur Garðarsson, umboðsmaður leikmannsins, í samtali við mbl.is í dag.

Viðar vill komast burt frá Rússlandi eftir dvöl hjá Rostov og Rubin Kazan en framherjinn er afar eftirsóttur. Viðar er með tilboð frá liðum á Englandi, Danmörku, Svíþjóð og Tyrklandi meðal annars en Viðar staðfesti í samtali við mbl.is á dögunum að hugurinn leitaði til Tyrklands.

Viðar Örn hefur verið atvinnumaður frá árinu 2014 þegar hann gekk til liðs við norska úrvalsdeildarfélagið Vålerenga frá Fylki. Hann hefur leikið með Jiangsu Sainty, Malmö, Maccabi Tel Aviv, Rostov, Hammarby og Rubin Kazan á atvinnumannsferli sínum. 

Framherjinn verður þrítugur í mars en hann hefur alltaf staðið sig í stykkinu og skorað fyrir þau lið sem hann hefur spilað fyrir, nema í Rússlandi. Viðar hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár en hans mál ættu að skýrast áður en janúarglugganum verður lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert