Aðstæður til að verða betri fót­boltamaður

Alfons Sampsted er orðinn leikmaður Bodø/Glimt.
Alfons Sampsted er orðinn leikmaður Bodø/Glimt. Ljósmynd/Bodø/Glimt

„Mér líst mjög vel á þetta og ég er sannfærður um að þetta sé rétta skrefið fyrir mig,“ sagði knattspyrnumaðurinn Alfons Sampsted í samtali við mbl.is eftir að hann skrifaði undir þriggja ára samning við norska félagið Bodø/​Glimt. Hann kemur til félagsins frá Norrköping í Svíþjóð, en hann æfði með Bodø/​Glimt og spilaði auk þess vináttuleiki með liðinu er hann var á reynslu hjá því í síðasta mánuði.

„Ég kom til félagsins á reynslu í lok janúar og fékk tilfinningu fyrir klúbbnum. Ég ræddi svo mikið við Oliver Sigurjóns líka. Þeir spila fótbolta sem hentar mér og áhuginn sem ég fékk frá þjálfaranum og klúbbnum í janúar gerði það að verkum að tilfinningin mín fyrir klúbbnum varð góð,“ sagði Alfons, en hann og Oliver voru liðsfélagar hjá Breiðabliki.

Alfons segir að allt sé til alls hjá Bodø/​Glimt til að verða betri leikmaður. „Það er allt til alls hérna. Mér dettur ekki neitt í hug sem gæti vantað. Það er vel hugsað um mann og læknisskoðunin var alveg virkilega nákvæm. Það er hugsað fyrir öllu og hér eru aðstæður til að verða betri fótboltamaður.“

Alfons Sampsted í leik með U21 árs landsliðinu.
Alfons Sampsted í leik með U21 árs landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bodø/​Glimt leikur í efstu deild þriðja árið í röð, en liðið tryggði sér sæti í deild þeirra bestu árið 2017. Félagið hefur vaxið mikið undanfarin ár og hafnaði í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og spilar því í undankeppni Evrópudeildarinnar.

„Það var flott tímabil hjá þeim og fótboltinn sem þeir spiluðu var árangursríkur og flottur. Vonandi heldur það áfram. Ég er að sjálfsögðu spenntur fyrir Evrópukeppninni, ég fékk að spila í henni með Blikunum og Norrköping sömuleiðis. Það er sjarmi yfir þessu,“ sagði Alfons, sem fékk lítið sem ekkert að spreyta sig hjá Norrköping.

Aldrei að vita hvort það komi eitthvað stórt

„Ég á fullt af vinum þarna og var í fínasta sambandi við þjálfarana og liðsfélagana en það kom upp sú staða að það voru ekki mínútur að finna þar, svo það var bara að leita annað.“

Hann telur að félagsskiptin til Bodø/​Glimt gætu virkað sem milliskref fyrir eitthvað stærra í framtíðinni. „Það er aldrei að vita. Þeir hafa verið að selja leikmenn í stór lið. Ef maður getur staðið sig vel hér er aldrei að vita hvort það komi eitthvað stórt. Eins og staðan er núna er ég bara að koma mér inn í allt hérna.

Ég þarf að komast inn í hópinn, læra á spilkerfið og standa mig vel hér. Ég á að vera hægribakvörður, en enginn þjálfari getur lofað sæti í liðinu. Ég er hins vegar einn af þeim sem eru alvarlega að keppast um mínútur. Það heillar líka,“ sagði Alfons, sem lék sína fyrstu A-landsleiki gegn Kanada og El Salvador í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert