Ítalinn Daniele De Rossi vill verða knattspyrnustjóri Roma einn daginn en hann lék 616 leiki fyrir liðið á sínum tíma og er goðsögn hjá félaginu. Lék hann með því í 20 ár og er hann reiðubúinn að bíða í 20 ár til viðbótar eftir tækifæri til að stýra því.
Rossi, sem er 36 ára, vill læra af þeim bestu áður en hann tekur við draumastarfinu. „Ég spilaði í 20 ár með sama liðinu og það er ekki algengt í dag. Ég væri til í að þjálfa Roma einn daginn en fyrst þarf ég að verða þjálfari,“ sagði De Rossi við Sky á Ítalíu.
„Það liggur ekkert á. Ég vil verða eins góður stjóri og ég mögulega get áður en ég tek við Roma. Ég vil læra af þeim bestu og heimsækja bestu stjóra heims eins og Pep Guardiola. Ég þarf að læra helling. Það gæti tekið 5, 10 eða 20 ár að fá starfið en ég er til í að bíða,“ sagði miðjumaðurinn sem varð heimsmeistari með Ítalíu árið 2006.