Lék með og á móti heimsklassa mönnum

Arnór á ferðinni fram hægri kantinn í leik með Anderlecht …
Arnór á ferðinni fram hægri kantinn í leik með Anderlecht tímabilið 1989-1990 sem hér er til umfjöllunar. mbl.is

Á þessum degi fyrir þrjátíu árum síðan lék Arnór Guðjohnsen til úrslita með Anderlecht í Evrópukeppni bikarhafa gegn ítalska liðinu Sampdoria. Ítalirnir höfðu betur en þeirra skærasta stjarna, Gianluca Vialli, skoraði bæði mörkin í 2:0 sigri á Ullevi-leikvanginum í Gautaborg. 

Mbl.is hafði samband við Arnór og ræddi við hann í tilefni þessara tímamóta. 

Arnór lék tvívegis til úrslita í Evrópukeppnum en með sigri árið 1990 hefði hann orðið fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn til að verða Evrópumeistari. Fleiri höfðu leikið til úrslita en tapað. Svo fór að sonur Arnórs, Eiður Smári Guðjohnsen, varð fyrsti íslenski Evrópumeistarinn í knattspyrnunni árið 2009 með Barcelona. 

Úrslitaleikurinn

Í dag hljómar Sampdoria ef til vill ekki sem erfiður andstæðingur í þessum gæðaflokki en lið Sampdoria var geysilega sterkt á þessum árum og undir lok níunda áratugarins voru fleiri stjörnuleikmenn í ítölsku deildinni en öðrum. Sampdoria hafði leikið til úrslita í keppninni árið áður og fór í úrslitaleikinn í Evrópukeppni meistaraliða tveimur árum síðar. Sampdoria varð ítalskur meistari 1991 og ítalskur bikarmeistari 1988 og 89. Framherjarnir Gianluca Vialli og Roberto Mancini voru þekktastir en Pietro Vierchowod var einnig ítalskur landsliðsmaður og markvörðurinn Gianluca Pagliuca átti flottan feril. Margir muna eftir Attilio Lombardo og Brasilíumaðurinn Cerezo var lengi hjá Sampdoria. Á þessum tíma var Victor Munoz hjá Sampdoria sem lengi var fastamaður hjá Barcelona og spænska landsliðinu. Slóveninn Srecko Katanec var í liði Sampdoria en árið áður hafði hann leikið til úrslita með Ásgeiri Sigurvinssyni og Stuttgart í UEFA-bikarnum gegn Napólí. Á þessum árum var Arnór sjálfur orðaður við Sampdoria.

Umfjöllun Morgunblaðsins 10. maí 1990. Á myndinni rennir Arnór sér …
Umfjöllun Morgunblaðsins 10. maí 1990. Á myndinni rennir Arnór sér í Gianluca Vialli í úrslitaleiknum.

„Á þessum tíma var toppurinn fyrir fótboltamenn að fara til Ítalíu. Á vissan hátt eins og enska deildin er í dag. Þetta lið er örugglega sterkasta lið sem Sampdoria hefur átt. Vialli var gríðarlega öflugur framherji og Mancini var alveg frábær fótboltamaður. Ég hreifst alltaf rosalega mikið af Mancini. Það var lengi í umræðunni að ég væri að fara þangað. Þeir voru með þjálfara frá Júgóslavíu, Boskov, og þetta var alltaf í umræðunni. En á þessum tíma gátu bara verið tveir útlendingar verið inni á vellinum í hverju liði og var þá gjarnan lagt upp með að þeir gætu trekkt að áhorfendur. Komandi frá Íslandi þá minnkuðu möguleikarnir líklega við það. Um tíma leit út fyrir að Cerezo færi frá liðinu og ég átti þá að koma í staðinn en svo ákváðu þeir að framlengja við hann enda var hann mjög vinsæll. Á þessum tíma gat maður ekki bara farið þótt lið hefðu áhuga enda var þetta alger frumskógur á þessum tíma. Lið gátu bara sett upp fáránleg verð ef þau vildu ekki að maður færi,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is enda er þettta áður en Bosman-dómurinn breytti öllu varðandi félagaskipti. 

Treyja Vialli kemur ekki í leitirnar

Vialli réði úrslitum í leiknum með því að skora bæði mörkin í framlengingunni. Fótboltaheimurinn er stundum lítill þegar að er gáð en Vialli átti áratug síðar eftir að fá Eið Smára, son Arnórs, til Chelsea. Í sjónvarpsútsendingunni frá úrslitaleiknum á sínum tíma sást vel að Arnór fékk treyju Vialli í leikslok á Ullevi.

„Já já við skiptumst á treyjum. Ég gaf Eiði Smári þessa treyju en hann finnur hana ekki í dag. Því miður,“ sagði Arnór og hlær. „Það er reyndar alltaf verið að biðja mann um treyjur frá þessum tíma en ég á bara ekki neitt til að láta fólk hafa. Ég á ekki eina treyju sjálfur til minningar,“ sagði Arnór.

Krafa um árangur hjá Anderlecht

Anderlecht keypti Arnór frá Lokeren sumarið 1983 og var Arnór því í sjö ár hjá Anderlecht og varð bæði belgískur meistari og bikarmeistari. Þar lék hann með mörgum frábærum leikmönnum á þessum árum en Belgar fóru til að mynda í undanúrslit á HM 1986 í Mexíkó. Þegar liðið varð meistari árið 1987 stóð Arnór upp úr. Varð markakóngur og valinn leikmaður ársins í Belgíu. Þá voru í liðinu kappar eins og Enzo Scifo og Franky Vercauteren sem höfðu verið í stórum hlutverkum á HM í Mexíkó auk Georges Grün sem lék í þremur lokakeppnum HM. Þá var einnig í liðinu Adri van Tiggelen sem var Evrópumeistari með Hollandi árið 1988. 

Liðið hafði tekið nokkrum breytingum tímabilið 1989-1990 var þó enn mjög sterkt. Grün var þá fyrirliði og leikmenn eins og Patrick Vervoort, Marc Degreyse, Stephen Keshi, Milan Jankovic og Luc Nilis höfðu verið keyptir til liðsins eftir tímabilið 1987.

„Við vorum með gríðarlega sterkt lið. Ekki bara í Belgíu heldur á evrópskan mælikvarða. Við vorum örugglega á meðal fimm bestu liðanna í Evrópu. Sem dæmi þá sló Bayern München okkur út eitt árið en svo slógum við þá út eitt árið en Bayern var þá eitt stærsta liðið í Evrópu fyrir utan kannski tvö bestu ítölsku liðin. Anderlecht hafði þrisvar unnið Evrópukeppni á árunum áður en ég kom til félagsins. 1976 og 1978 [Evrópukeppni bikarhafa] og voru nýkrýndir Evrópumeistarar þegar ég kom til félagsins eftir að hafa unnið [UEFA bikarinn] 1983. Í þjálfarateyminu hjá okkur voru menn sem höfðu tekið þátt í úrslitaleikjum.

Ekki virðast leikmenn Anderlecht vera alveg samstíga á þessari mynd.
Ekki virðast leikmenn Anderlecht vera alveg samstíga á þessari mynd. mbl.is/Wouters

Andrúmsloftið sem mætti manni hjá Anderlecht þegar ég kom frá Lokeren voru bara kröfur upp fyrir haus. Það kom ekkert annað til greina en að vinna belgísku deildina í þeirra huga. Það var svo mikið æft á þessum tíma að í dag þætti það bara alger vitleysa. Ég meiddist meira eða minna fyrstu tvö árin eða tvö og hálft eftir að ég kom til Anderlecht. Það er önnur saga en kröfurnar sem til okkar voru gerðar voru miklar. Mig minnir að við höfum verið með
sextán landsliðmenn í hópnum. Fyrir tímabilið 1989-1990 höfðum við fengið nýjan stjóra, Aad de Mos, sem hafði gert Mechelen að Evrópumeisturum árið áður en hann kom. Hann keypti Marc Degryse, Marc van der Linden og einhverja fleiri. Það var hörkusamkeppni í liðinu en við vorum einnig fínir félagar. De Mos var að mörgu leyti rosalega flottur á þessu fyrsta tímabili og talaði oft eins og við gætum ekki tapað,“ sagði Arnór en á leið sinni í úrslitaleikinn sló Anderlecht út Barcelona undir stjórn Johans Cruyff en Barcelona fór í úrslit í Evrópukeppnum 1989, 1991 og 1992. Tveimur árum síðar vann liðið einmitt Sampdoria í úrslitum Evrópukeppni meistaraliða á Wembley. Arnór lagði upp fyrra mark Anderlecht í 2:0 sigri í fyrri leiknum gegn Barcelona í Brussel. 

Í undanúrslitum sló Anderlecht út lið Dinamo Bukarest en á þessum tíma voru Rúmenar að eignast sterkt landslið sem átti eftir að blómstra á HM 1994. Í liði Dinamo 1990 voru leikmenn eins og Bogdan Stelea, Ionuț Lupescu og Florin Raducioiu. Í keppninni voru einnig lið eins og Dortmund, Celtic, Mónakó, Panathinaikos og Partizan Belgrad. 

Aðdáendur setja sig enn í samband

Arnór segir að stuðningsmenn Anderlecht kunni vel að meta hversu góðum árangri liðið náði á þeim sjö árum sem Arnór spilaði þar. Upp á síðkastið hefur hann orðið var við að mönnum þykir vænt um það sem hann lagði af mörkum. 

Nóg að gera í að sinna aðdáendum.
Nóg að gera í að sinna aðdáendum. mbl.is

„Það er skemmtilegt að horfa til baka og rifja upp stór augnablik á ferlinum. Það er svolítið gaman að því að í þessari Covid-kreppu þá er víða verið að sýna gamla leiki og rifja ýmislegt upp. Til dæmis í Belgíu. Undanfarnar vikur hef ég fengið alls kyns skilaboð frá aðdáendum í Belgíu vegna þess að þar er verið að sýna gamla leiki sem ég spilaði með Anderlecht en einnig Lokeren. Sumu af þessu var maður nánast búinn að gleyma. Eftir að Vincent Kompany kom til Anderlecht hefur liðinu gengið illa. Ég þekki það vel að stuðningsmenn Anderlecht eru mjög kröfuharðir og hafa greinilega gaman að því að rifja upp gömlu góðu tímana á meðan þeir eru svekktir yfir gengi liðsins síðasta vetur. Ég fæ til dæmis alls kyns fyrirspurnir og vinabeiðnir á Facebook í sambandi við þetta. Það er dálítið fyndið að fylgjast með þessu en frábært að sjá gömul myndskeið sem þeir eru að senda manni.“

Síðasti leikurinn fyrir Anderlecht

Leikurinn fyrir þrjátíu árum markaði tímamót á ferli Arnórs því hann var sá síðasti sem Arnór spilaði fyrir Anderlecht. „Þetta var minn síðasti leikur fyrir Anderlecht. Mér var boðinn samningur sem ég hafnaði. Mönnum var bara stillt upp við vegg á þessum tíma en í þetta skiptið ákvað ég að láta reyna á hvort ég gæti farið og fengið nýja áskorun. Ég hafði upplifað nánast allt með Anderlecht á þessum sjö árum sem hægt var að upplifa í Evrópuboltanum, nema að verða Evrópumeistari. Forseti félagsins fór í fýlu við mig og ýmislegt gekk á. Svo var það ekki fyrr en í október sem Bordeaux keypti mig en þar voru þjálfarar sem höfðu verið hjá Anderlecht. Forseti Bordeaux flaug yfir og fékk kaupin samþykkt.

Þar átti ég góða tíma inni á vellinum þótt Bordeaux hafi lent í fjárhagsvandræðum sem leiddu til gjaldþrots. Þar spilaði ég með skemmtilegum leikmönnum eins og Patrick Battiston, Didier Deschamps, Wim Kieft auk þess sem Bixente Lizarazu og Christophe Dugarry voru að koma upp þarna,“ sagði Arnór en Battiston var í Evrópumeistaraliði Frakka 1984. Deschamps, Lizarazu og Dugarry urðu heims-og Evrópumeistarar með Frökkum 1998 og 2000. Deschamps bætti svo heimsmeistaratitli við sem þjálfari 2018. Þá var Kieft í liði Hollands sem varð Evrópumeistari 1988. 

Úrslitaleikurinn árið 1990 og frammistaða Anderlecht er einnig til upprifjunar  í Morgunblaðinu í sem kom út í morgun og þar er einnig rætt við Arnór. 

Arnór skorar og kemur Íslandi yfir gegn Sovétríkjunum á Laugardalsvellinum …
Arnór skorar og kemur Íslandi yfir gegn Sovétríkjunum á Laugardalsvellinum í undankeppni EM 1988 en Sovétmenn áttu eftir að leika til úrslita í keppninni. Markvörðurinn heimsfrægi, Rinat Dasayev, horfir á eftir boltanum. Morgunblaðið/Bjarni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert