Gamla ljósmyndin: Settu svip á þýska knattspyrnu

Úr safni Morgunblaðsins

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Ekki er mjög algengt að Íslendingar mætist í allra bestu atvinnumannadeildum Evrópu í knattspyrnunni. Ekki hafði það gerst oft þegar Ásgeir Sigurvinsson og Atli Eðvaldsson mættust í efstu deild í Þýskalandi snemma á níunda áratugnum og byrjuðu báðir inn á. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá þessa tvo af frægustu leikmönnum í sögu íslenskrar knattspyrnu ganga af velli eftir leik Fortuna Düsseldorf og Stuttgart á Rheinstadion hinn 27. október 1984. Íslendingarnir sættust á sitt hvort stigið en leiknum lauk 2:2. Pétur Ormslev var einnig hjá Düsseldorf á þessu keppnistímabili en kom ekki við sögu í leiknum. 

Á árunum á undan höfðu Atli og Ásgeir látið mjög að sér kveða í Þýskalandi. Keppnistímabilið 1982 - 1983 varð Atli næstmarkahæstur í deildinni ásamt Karl Allgöwer með 21 mark en einungis Rudi Völler sló þeim við með 23 mörk. Atli skoraði fyrst­ur er­lendra leik­manna fimm mörk í ein­um leik í þýsku Bundeslig­unni eins og frægt er orðið. Afrekaði það í 5:1-sigri á Eintracht Frankfurt en þrjátíu og tveimur árum síðar tókst Pólverjanum Robert Lewandowski að jafna það met. 

Atli lék fjögur tímabil með Fort­una Düs­seldorf þar sem hann lék 122 leiki og skoraði 38 mörk frá 1981 til 1985. 

Hann hafnaði í 3. sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins árið 1983 og var um árabil fyrirliði íslenska landsliðsins. 

Ásgeir varð þýskur meistari með Stuttgart snemma sumars 1984 eða nokkrum mánuðum áður en myndin er tekin. Var hann kjörinn leikmaður ársins af leikmönnum deildarinnar og var því lykilmaður í velgengni Stuttgart. 

Ásgeir lék með Stuttgart síðustu átta árin á sínum ferli frá 1982 - 1990 en í maí voru þrjátíu ár frá því hann lék sinn síðasta leik eins og mbl.is rifjaði upp. Lék hann 194 leiki fyrir Stuttgart og skoraði 38 mörk. 

Ásgeir hlaut sæmdarheitið íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna 1977 og 1984.

Ásgeir var útnefndur í heiðurshöll ÍSÍ hinn 3. janúar árið 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert