Viðar Örn Kjartansson landsliðsmaður í knattspyrnu er laus allra mála frá tyrkneska félaginu Yeni Malaytaspor, sem hann hefur leikið með frá áramótum.
Viðar hafði samið um að leika áfram með liðinu á næsta tímabili en að sögn Ólafs Garðarssonar umboðsmanns voru forsendur fyrir því ekki lengur fyrir hendi. „Þessi mál voru leyst í góðu og að frumkvæði Viðars. Ljóst var að vegna kórónuveirunnar hefði félagið ekki getað staðið við samninginn, þar sem það er í miklum erfiðleikum. Viðar er nú laus allra mála og getur fundið sér nýtt félag," sagði Ólafur við mbl.is.
Viðar lék fimmtán leiki með Yeni Malaytaspor í tyrknesku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim tvö mörk en byrjaði aðeins inn á í þremur þeirra.