Enska landsliðið framlengir dvölina á Íslandi

Raheem Sterling og Harry Kane fagna marki með enska landsliðinu. …
Raheem Sterling og Harry Kane fagna marki með enska landsliðinu. Þeir eru á leið til Íslands í næstu viku. AFP

Enska karlalandsliðið í knattspyrnu mun dvelja í tvo daga hér á landi eftir leikinn gegn Íslandi í Þjóðadeild UEFA sem fer fram á Laugardalsvellinum laugardaginn 5. september.

Englendingar ætla að hvílast hér á landi og búa sig síðan undir leikinn gegn Dönum á Parken í Kaupmannahöfn í sömu keppni en hann fer fram þriðjudaginn 8. september. Algengast er að lið fari af landi brott samdægurs eða í síðasta lagi snemma að morgni daginn eftir leik ef leikið er að kvöldi. Leikur Íslands og Englands hefst klukkan 16 annan laugardag.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur enska knattspyrnusambandið bókað 65 herbergi á hóteli í Reykjavík fyrir liðið og starfsfólk þess frá föstudeginum 4. september til mánudagsins 7. september, ásamt fundasölum og annarri aðstöðu. Ástæðan er samkvæmt heimildum sú að Englendingar treysti betur ástandinu á Íslandi en í Danmörku vegna kórónuveirunnar, og jafnframt að þeir séu afar ánægðir með þann aðbúnað sem þeim er boðið upp á hér á landi.

Ísland, England, Danmörk og Belgía eru saman í riðli í A-deild Þjóðadeildar UEFA en Danir taka á móti Belgum á Parken 5. september. Íslenska liðið fer til Belgíu og spilar þar 8. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert