Sterling tryggði Englandi sigur

England vann nauman 1:0-sigur á Íslandi á Laugardalsvellinum í fyrstu umferð Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu í dag. Eftir fremur fá marktækifæri í 90 mínútur voru tvær vítaspyrnur dæmdar á lokamínútunum. 

Íslenska landsliðið lék án nokkurra lykilleikmanna, fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er ekki í landsliðshópnum frekar en þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson og Ragnar Sigurðsson. Engu að síður hélt íslenska liðið vel aftur af enska liðinu sem reyndar saknaði Harrys Maguires, Marcus Rashfords og Jordans Hendersons. 

Á 90. mínútu fékk England vítaspyrnu þegar dæmd var hendi á Sverri Inga Ingason sem að auki fékk brottvísun. Hann fékk þá að sjá gula spjaldið í annað sinn í leiknum. Raheem Sterling skoraði af öryggi úr spyrnunni. Hann hafði sjálfur átt skotið sem small í Sverri. 

Hólmbert Aron Friðjónsson kom þá inn á og Íslendingar bombuðu boltanum fram. Hólmbert féll eftir baráttu við Joe Gomez og fékk vítaspyrnu. Birkir Bjarnason brenndi hins vegar af á vítapunktinum. Skaut yfir samskeytin hægra megin en Jordan Pickford markvörður Englands skutlaði sér í vinstra hornið. 

Íslendingar höfðu verið manni fleiri frá því á 70. mínútu þegar bakvörðurinn Kyle Walker fékk sitt annað gula spjald og þar með brottvísun. Síðara spjaldið fékk hann fyrir að tækla Arnór Ingva Traustason. 

Englendingar þurfa vítaspyrnur gegn Íslandi

Það tók tíma fyrir Englendinga að skora gegn Íslandi. Þeir höfðu ekki skorað gegn íslenska liðinu í nánast tvo leiki. Þegar liðin mættust á EM 2016 skoraði Wayne Rooney einnig úr vítaspyrnu og kom markið strax á 4. mínútu. 

Varnarvinnan var mjög góð hjá Íslandi í kvöld og þótt liðið hafi verið vængbrotið var skipulagningin góð. Skynsemin réð ferðinni og þótt Englendingar væru miklu meira með boltann opnuðu þeir ekki íslensku vörnina oft. 

Harry Kane kom þó boltanum í netið snemma leiks eða á 6. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Englendingar voru ekki sáttir við þann dóm enda var virtist þetta mjög tæpt. 

Að öðru leyti sköpuðu Englendingar sér fá opin marktækifæri í fyrri hálfleik. Á 41. mínútu var James Ward-Prowse í upplögðu færi þegar hann fékk boltann á markteig en hitti ekki boltann. 

Helsta skottilraun Íslands í fyrri hálfleik var þegar Arnór Ingvi Traustason skaut framhjá markinu vinstra megin úr aukaspyrnu við vítateigshornið vinstra megin. 

Leikurinn róaðist í raun enn frekar í síðari hálfleik hvað marktækifærin varðar. Declan Rice skaut hátt yfir þegar hann fékk gott skotfæri rétt utan teigs á 53. mínútu. 

Þegar Walker fékk brottvísun á 70. mínútu jókst bjartsýni íslensku landsliðsmannanna væntanlega enn frekar en þér létu þó Englendingum það eftir að mestu að vera með boltann. Flestir voru væntanlega farnir að búast við markalausu jafntefli þegar Sterling fékk vítaspyrnuna á 90. mínútu. Síðast þegar Englendingar komu til Íslands gerðu þjóðirnar einmitt jafntefli, 1:1, en það var árið 1982. 

Kraftur í Guðlaugi Victori

Íslenska liðið spilaði eins og það hefur gert í mörg ár. Leikstíll sem skilaði því inn á tvö stórmót og möguleikinn á því að komast inn á það þriðja í röð er enn fyrir hendi. Þegar liðið stillir upp í hálfgerða handboltavörn á eigin vallarhelmingi er geysilega erfitt að búa til góð marktækifæri gegn því. Það hefur sýnt sig áður og sýndi sig enn og aftur í dag. Leikmenn eru með sín hlutverk á hreinu og færslurnar í varnarvinnunni eru vel þjálfaðar. 

Þegar uppi er staðið áttu Englendingar fimm skot í leiknum sem rötuðu á íslenska markið. Íslendingar áttu ekki skot sem rataði á enska markið sem er ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. En þótt hættulegar sóknir hafi verið fáar fékk Ísland engu að síður víti. Þannig hefur þetta oft verið hjá íslenska liðinu síðustu árin. Liðið er í vörn gegn sterkum andstæðingum en nær yfirleitt að skapa sér einhver dauðafæri. Það er hins vegar verulegt áhyggjuefni hversu illa gengur og hefur gengið að nýta vítaspyrnur á undanförnum árum. 

Guðlaugur Victor Pálsson var besti maður íslenska liðsins í dag. Lék á miðjunni og var mikill kraftur í honum. Vann mörg návígi og var mjög baráttuglaður.  Kára Árnasyni og Sverri Inga gekk vel í miðvarðastöðunum og fengu þá hjálp fyrir framan sig sem þeir þurfa gegn andstæðingum í þessum gæðaflokki. 

Jón Dagur Þorsteinsson fékk tækifæri í byrjunarliðinu og komst ágætlega frá því. Albert Guðmundsson var býsna sprækur sérstaklega þegar haft er í huga að hann fór óvænt inn í byrjunarliðið. Hann átti nokkra ágæta spretti en vantaði stundum bara herslumuninn á að skapa meiri hættu.

Ísland 0:1 England opna loka
90. mín. Raheem Sterling (England) skorar úr víti Renndi boltanum í mitt markið. Hannes valdi hægra hornið frá Sterling séð.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert