Viðurkennir að hafa myndað Englendingana

Lára Clausen.
Lára Clausen. Ljósmynd/Facebook

Lára Clausen, önnur tveggja íslenskra kvenna sem heimsóttu ensku landsliðsmennina Phil Foden og Mason Greenwood á hótel þar sem enska liðið dvaldi í gær, hefur viðurkennt að hafa tekið upp myndband af leikmönnunum. 

Nadía Sif Líndal Gunnarsdóttir, vinkona Láru sem fór með henni á hótelið, sagðist fyrr í kvöld ekki hafa lekið myndefni af samskiptum sínum við leikmennina til fjölmiðla. 

Fod­en og Ma­son gerðust sek­ir um brot á ís­lensk­um sótt­varn­a­regl­um með heim­sókn Nadíu og Láru. Voru þeir báðir sektaðir um 250.000 krón­ur auk þess sem þeir voru send­ir heim til Eng­lands og spila því ekki með enska landsliðinu í leik liðsins gegn Dan­mörku á þriðju­dag. Enska liðið vann 1:0-sig­ur á ís­lenska landsliðinu í Þjóðadeild UEFA á laug­ar­dag, en leik­ur­inn var fyrsti A-landsliðsleik­ur bæði Fod­ens og Greenwoods. 

Vakti meiri athygli en hún hefði getað ímyndað sér

Lára tjáði sig um málið á instagramreikningi sínum í kvöld. Hún segir að málið hafi vakið meiri athygli en hún hefði getað ímyndað sér. Hún viðurkennir að hafa tekið leikmennina upp og segir það hafa verið mistök og hugsunarleysi. Hún segist ekki hafa gert sér grein fyrir því hve frægir fótboltamennirnir eru þar sem hún fylgist ekki með íþróttinni. 

Hún segist ekki hafa búist við því að myndefninu sem hún deildi með nánum vinum sínum yrði lekið til fjölmiðla. Hún segist geta lofað fylgjendum sínum að ef hún hefði vitað betur hefði hún ekki hitt leikmennina. Þá segist hún ekki hafa vitað að Foden ætti kærustu og barn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka