Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði sitt fyrsta mark fyrir Le Havre í frönsku 1. deildinni í dag er hún var í byrjunarliði Le Havre sem gerði 1:1-jafntefli gegn Paris FC á útivelli.
Berglind kom gestunum yfir seint í leiknum, á 87. mínútu, en það dugði því miður ekki til sigurs er heimakonur jöfnuðu metin tveimur mínútum síðar. Anna Björk Kristjánsdóttir var einnig í byrjunarliði Le Havre en íslensku landsliðskonurnar spiluðu báðar allan leikinn.
Le Havre er með fjögur stig eftir þrjár umferðir en þetta var annar leikur Berglindar með liðinu og sá fyrsti hjá Önnu.
Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar í Evrópumeistaraliði Lyon eru með sex stig eftir tvo leiki og eiga heimaleik gegn Bordeaux annað kvöld.