Víkingurinn mættur til Horsens

Ágúst Eðvald Hlynsson er genginn til liðs við Horsens í …
Ágúst Eðvald Hlynsson er genginn til liðs við Horsens í Danmörku. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ágúst Eðvald Hlynsson hefur skrifað undir fjögurra ára samning við danska knattspyrnufélagið Horsens en þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Ágúst, sem er tvítugur að árum, hefur leikið með Víkingum úr Reykjavík, undanfarin tvö tímabil, en hann er uppalinn hjá Breiðabliki í Kópavogi.

Hann hefur einnig leikið með unglingaliðum Norwich og Brøndby á sínum ferli en hann gekk til liðs við Norwich frá Breiðabliki árið 2017.

Ágúst á að baki 43 leiki í efstu deild með Breiðabliki og Víkingum þar sem hann hefur skorað átta mörk og þá á hann að baki 26 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands, tvo fyrir U21-árs landsliðið.

Félagaskiptin hafa legið í loftinu að undanförnu en í gær var fullyrt að Ágúst yrði leikmaður Horsens á næstu dögum.

Horsens hefur byrjað tímabilið illa í Danmörku og er með eitt stig í neðsta sæti deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert