Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði er í hópi tuttugu bestu leikmanna í Evrópu á þessu ári, samkvæmt mati FourFourTwo, útbreiddasta knattspyrnutímarits á Bretlandseyjum.
FourFourTwo gengst fyrir kjöri á besta leikmanni Evrópu í kvennaflokki árið 2020 og fær sérfræðinga víðsvegar að úr álfunni til að greiða atkvæði. Tímaritið hefur valið tuttugu leikmenn sem það telur þá bestu á þessu ári og Sara Björk er í þeim hópi, en sérfræðingarnir velja síðan fimm bestu leikmennina, hver fyrir sig.
Sara Björk varð Evrópumeistari með Lyon í ágúst og skoraði eitt markanna í 3:1 sigri á Wolfsburg í úrslitaleiknum. Hún hafði leikið með Wolfsburg í tveimur fyrstu umferðum keppninnar en síðan með Lyon frá átta liða úrslitum. Fyrr á árinu vann hún bæði þýska meistaratitilinn og bikarinn með Wolfsburg og varð bikarmeistari með Lyon skömmu eftir komuna þangað.
Sara, sem sló landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur í leiknum við Svía á þriðjudaginn, er í góðum félagsskap eins og sjá má á tuttugu manna listanum, með tíu fyrrverandi og núverandi samherjum í Wolfsburg og Lyon, en hópurinn er sem hér segir:
Alexia Putellas (Barcelona)
Alexandra Popp (Wolfsburg)
Amel Majri (Lyon)
Bethany England (Chelsea)
Christiane Endler (Paris Saint-Germain)
Debinha (North Carolina Courage)
Delphine Cascarino (Lyon)
Denise O’Sullivan (North Carolina Courage/Brighton)
Dzsenifer Marozsán (Lyon)
Eugenie Le Sommer (Lyon)
Ewa Pajor (Wolfsburg)
Guro Reiten (Chelsea)
Ji So-yun (Chelsea)
Lucy Bronze (Lyon)
Marie-Antoinette Katoto (Paris Saint-Germain)
Pernille Harder (Wolfsburg)
Sara Björk Gunnarsdottir (Lyon)
Sarah Bouhaddi (Lyon)
Vivianne Miedema (Arsenal)
Wendie Renard (Lyon)