Håland ekki illa meiddur

Erling Braut Håland í leik með Dortmund um síðustu helgi.
Erling Braut Håland í leik með Dortmund um síðustu helgi. AFP

Erling Braut Håland, framherji Borussia Dortmund í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla, verður fljótlega klár í slaginn aftur. Þetta staðfesti hann í dag á Twitter-síðu sinni.

Håland meiddist á æfingu á dögunum og var óttast að hann yrði frá í mánuð hið minnsta. Hafði Lucien Favre, knattspyrnustjóri Dortmund meðal annars fullyrt það og velt því upp hvort að meiðslin hafi komið upp vegna þess að Håland hafi spilað of mikið að undanförnu.

Håland sagði hins vegar á Twitter-síðu sinni: „Góðar fréttir! Var að ræða við læknana mína. Kem aftur fljótlega.“ Hann segir ekki nákvæmlega hvenær hann muni snúa aftur en búist er við honum aftur á völlinn á næstu tveimur vikum.

Håland, sem er aðeins 20 ára gamall, er algjör lykilmaður í liði Dortmund, þar sem hann hefur skorað 33 mörk í 32 leikjum síðan hann kom til liðsins í janúar á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert