Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti rétt í þessu að leik París SG og Istanbúl Basaksehir í Meistaradeildinni yrði haldið áfram á morgun.
Leikurinn var stöðvaður eftir rúmlega 20 mínútur í kvöld, þegar staðan var 0:0, en leikmenn tyrkneska liðsins mótmæltu þá harkalega meintum kynþáttafordómum fjórða dómara leiksins í garð aðstoðarþjálfara Basaksehir. Liðið gekk af velli og sama gerðu leikmenn París SG.
Leikurinn hefur verið settur á að nýju klukkan 17.55 á morgun og byrjað aftur á þeirri mínútu sem hann var stöðvaður. Það mun hafa verið á 14. mínútu en leikklukkan var komin í 23 mínútur þegar liðin gengu af velli.
Úrslitin hafa ekki áhrif á hvaða lið fara áfram, fyrir liggur að RB Leipzig og París SG eru komin í 16-liða úrslitin en Manchester United hafnar í þriðja sæti riðilsins. PSG getur hinsvegar tryggt sér sigur í riðlinum með því að vinna leikinn gegn Basaksehir og það skiptir máli hvað framhaldið í keppninni varðar.