Albert Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekk AZ Alkmaar þegar liðið heimsótti Utrecht í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Leiknum lauk með 2:2-jafntefli en Albert hefur ekkert leikið með AZ Alkmaar síðan 10. desember þegar liðið tapaði 2:1 gegn Rjeka í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í Króatíu.
Albert hefur spilað vel í Hollandi á tímabilinu og skorað þrjú mörk og lagt upp önnur tvö í sex byrjunarliðsleikjum í efstu deild Hollands, ásamt því að skora tvö mörk í Evrópudeildinni.
5. desember var Arne Slot hins vegar rekinn frá AZ Alkmaar og Pascal Jansen, aðstoðarþjálfari liðsins, var ráðinn tímabundinn stjóri AZ Alkmaar.
Samstarf Alberts og Jansen fór ekki vel af stað því 18. desember greindu hollenskir fjölmiðlar frá því að Jansen hefði sett Albert í agabann fyrir neikvætt hugarfar en Albert var ónotaður varamaður í 3:1-sigri AZ á útivelli gegn Twente 13. desember og ekki í hóp í 5:3-heimasigri AZ gegn Willem II 20. desember.
Albert fékk að snúa aftur til æfinga 21. desember en hefur þrátt fyrir það ekkert komið við sögu í síðustu tveimur leikjum AZ Alkmaar, í 3:1-heimasigri gegn Vitesse 23. desember og loks í dag gegn Utrecht.