Erfitt að toppa þetta ár

Sara Björk Gunnarsdóttir átti magnað ár með íslenska landsliðinu og …
Sara Björk Gunnarsdóttir átti magnað ár með íslenska landsliðinu og félagsliðum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilfinningin er mjög góð," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í fótbolta í samtali við RÚV eftir að hún var kjörin íþróttamaður ársins í annað skipti á þremur árum af Samtökum íþróttafréttamanna.

„Þetta er búið að vera frábært ár hjá mér og eitt af mínu bestu árum á felinum. Ég náði öllum mínum markmiðum og það verður erfitt að toppa þetta ár,“ sagði Sara, en hún varð Evrópumeistari með franska liðinu Lyon og skoraði eitt mark í úrslitaleiknum gegn sínu gamla liði Wolfsburg. Þá átti hún sinn þátt í að Ísland tryggði sér þátttökurétt á lokamóti EM. 

„Það gerist ekki miklu stærra en að vinna Meistaradeildina. Þetta er búið að vera draumurinn í tíu ár, eða síðan ég byrjaði í atvinnumennsku, og tilfinningin að vinna þennan titil var æðisleg. Þetta gerist ekki mikið betra. Þetta var ákveðinn rússíbani. Það var skrítið að spila á móti sínu gamla liði í úrslitum. Ég var búin að sjá fyrir mér þessi lið í úrslitum.“

Sara er ekki södd, þrátt fyrir magnað ár að baki.„Það kemur nýtt ár, maður verður að halda áfram að toppa sjálfan sig. Það eru einhver markmið sem ég hef ekki náð; að vinna frönsku deildina og svo vill maður verja titlana með Lyon, bikarinn og Meistaradeildina.“

Ísland leikur á EM 2022, en mótinu var frestað um eitt ár vegna kórónuveirunnar. Sara er bjartsýn fyrir mótið. „Ég hef fulla trú á liðinu. Mér finnst þróunin hafa verið góð síðustu ár og mér finnst við hafa verið með eitt okkar besta lið í langan tíma og svo fáum við eitt og hálft ár til að undirbúa okkur fyrir EM. Við erum með unga leikmenn sem eru búnir að standa sig frábærlega og eru að koma ótrúlega sterkar inn. Við ætlum að gera eitthvað EM,“ sagði Sara Björk við RÚV. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert