Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir hefur samið við stórlið Wolfsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu. Sveindís, sem er 19 ára gömul, var keypt frá uppeldisfélagi sínu Keflavík og samdi við Þýskalandsmeistarana til sumarsins 2024. Hún verður strax lánuð til Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni, sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar.
Sveindís var að vonum ánægð með félagsskiptin þegar Morgunblaðið ræddi við hana. „Mér líður bara mjög vel með þetta og er frekar spennt, og smá stressuð í bland líka!“
Wolfsburg er eitt sterkasta lið Evrópu og hefur unnið Meistaradeild Evrópu tvisvar og þýsku 1. deildina sex sinnum. Því er ljóst að um afar stórt skref er að ræða. Sveindís telur einmitt skrefið bæði stórt en á sama tíma mátulegt þar sem hún fer beint á lán. „Ég fer náttúrulega á láni til Kristianstad þannig að þetta er mjög stórt en líka mjög passlegt skref.“
Sveindís hafði úr fjölda tilboða að velja, enda frægðarsól hennar risið hratt á árinu með frábærri frammistöðu í Pepsi Max-deildinni, þar sem hún var markahæst og valin best þegar hún var á láni hjá Breiðabliki, sem varð Íslandsmeistari. Nýliðið haust spilaði hún svo sína fyrstu landsleiki og skoraði sín fyrstu landsliðsmörk. Fór hún þá að fá tilboð í miklum mæli.
„Á Englandi var ég svolítið að pæla í Everton og svo voru nokkur lið í Svíþjóð líka. Ég hugsaði alveg um að fara til Kristianstad þannig að mér finnst bara geggjað að geta farið þangað á láni því ég hafði áhuga á því liði fyrir. Svo höfðu Rosengård og Gautaborg líka áhuga.“
Nánar er rætt við Sveindísi Jane í Morgunblaðinu í dag.