Albert Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar í Hollandi og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, birti afar áhugaverðu færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.
Í færslunni vitnaði Albert í tölfræði úr hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem kemur fram að landsliðsmaðurinn er á meðal hættulegustu leikmanna deildarinnar þegar kemur að því að skapa færi fyrir sig eða liðsfélaga sína.
Færsla Alberts hefur vakið upp misjöfn viðbrögð hjá stuðningsmönnum AZ Alkmaar og á meðan sumir reyna stappa stálinu í sóknarmanninn vilja aðrir meina að hann eigi ekki skilið að spila fyrir félagið fyrir það eitt að birta færsluna á samfélagsmiðlum.
Albert hefur ekkert fengið að spila með AZ Alkmaar undanfarnar vikur en hann lék síðast með liðinu gegn Rijeka í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, 10. desember síðastliðinn.
Pascal Jansen tók við stjórnartaumunum hjá AZ Alkmaar í byrjun desember þegar Arne Slot var rekinn en samstarf hans og Alberts hefur ekki farið vel af stað.
Jensen setti Albert í agabann um miðjan desember og lét hann æfa með varaliði félagsins. Hann sakaði leikmanninn um lélegt hugarfar og hefur Albert verið ónotaður varamaður í síðustu tveimur leikjum liðsins.
Hollenska úrvalsdeildin hefst á nýjan leik eftir jólafrí 9. janúar þegar AZ Alkmaar heimsækir Zwolle og verður áhugavert að sjá hvort Albert verði í liðinu.