Svava Rós Guðmundsdóttir landsliðskona í knattspyrnu hefur skrifað undir átján mánaða samning við franska félagið Bordeaux.
Svava kemur til liðs við Bordeaux frá Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún hefur leikið undanfarin tvö ár en atvinnumennskuna hóf hún með Röa í Noregi árið 2018. Þar á undan lék hún með Val og Breiðabliki.
Svava er 25 ára gömul og hefur leikið 23 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún er fjórði íslenski leikmaðurinn í frönsku 1. deildinni í vetur en Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með Evrópu- og Frakklandsmeisturum Lyon og þær Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir með Le Havre.
Bordeaux er í þriðja sæti frönsku 1. deildarinnar, á eftir stórliðunum París SG og Lyon. Eftir ellefu umferðir af 22 er París SG með 31 stig, Lyon 30 og Bordeaux er með 23 stig en liðið vann fimm síðustu leiki sína fyrir jól. Leikjum sínum gegn stórliðum PSG og Lyon tapaði Bordeaux báðum naumlega, 1:2 í báðum tilfellum, og það eru einu ósigrar liðsins.
Bordeaux á góða möguleika á að komast í Meistaradeild Evrópu næsta haust en þrjú efstu lið deildarinnar fá keppnisréttinn þar.
Keppni í Frakklandi hefst á ný eftir rúmlega mánaðarhlé um aðra helgi en Bordeaux á þá útileik gegn PSG, sem gæti þá orðið fyrsti leikur Svövu með liðinu.