Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er gengin til liðs við þýska knattspyrnufélagið Bayern München.
Miðjukonan hefur fengið félagaskipti sín frá Breiðabliki til Þýskalands staðfest en félagskiptin hafa legið lengi í loftinu.
Bayern hefur byrjað tímabilið í þýsku 1. deildinni af miklum krafti en liðið er í efsta sæti deildarinnar með 36 stig eða fullt hús stiga eftir fyrstu tólf leiki sína.
Þýskalandsmeistarar Wolfsburg eru í öðru sæti deildarinnar með 31 stig en Wolfsburg hefur unnið þýsku deildarkeppnina síðustu fjögur árin.
Bayern München hefur þrívegis orðið Þýskalandsmeistari, síðar árið 2016 en Dagný Brynjarsdóttir lék með liðinu þegar það varð meistari árið 2015.
Karólína gekk til liðs við Breiðablik frá uppeldisfélagi sínu FH árið 2017 en hún á að baki 78 leiki í efstu deild með Breiðabliki og FH þar sem hún hefur skorað ellefu mörk.
Sóknarkonan lék sína fyrstu A-landsleiki á síðasta ári í undankeppni EM og byrjaði báða leiki íslenska landsliðsins gegn Svíþjóð, á Laugardalsvelli og í Gautaborg.
Hún hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með Breiðabliki og einu sinni bikarmeistari á tíma sínum í Kópavoginum og þá var hún lykilmaður í liði Blika sem fór alla leið í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar tímabilið 2019.