Phil Neville er hættur sem þjálfari enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.
Þetta staðfesti enska knattspyrnusambandið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Neville er að taka við Inter Miami, knattspyrnufélagi Davids Beckhams, í bandarísku MLS-deildinni.
Neville mun skrifa undir tveggja ára samning við bandaríska félagið en hann er 43 ára gamall og hefur stýrt enska liðinu frá 2018.
Keppnistímabilið í Bandaríkjunum hefst í lok febrúar en félagið var stofnað á síðasta ári og hafnaði í 19. sæti deildarinnar á sínu fyrsta tímabili.
Óvíst er hver mun stýra enska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar en Sarina Wiegman mun taka við þjálfun enska liðsins næsta haust.