Emil Pálsson er genginn til liðs við norska knattspyrnufélagið Sarpsborg og skrifaði hann undir tveggja ára samning við félagið.
Þetta staðfesti Sarpsborg á samfélagsmiðlum sínum í dag en Emil kemur til félagsins á frjálsri sölu eftir að samningur hans við Sandefjord rann út á dögunum.
Emil hélt út í atvinnumennsku árið 2017 eftir að hafa verið á meðal bestu leikmanna Íslandsmótsins með FH.
Hann hefur nú skrifað undir hjá Sarpsborg en liðið hafnaði í tólfta sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
Emil, sem er 27 ára gamall, er uppalinn á Ísafirði en hann lék með BÍ/Bolungarvík, FH og Fjölni á láni áður en hann hélt út í atvinnumennsku.