Króatíski framherjinn Mario Mandzukic hefur gert samning við topplið ítölsku A-deildarinnar í fótbolta, AC Milan, en samningurinn gildir út leiktíðina.
Mandzukic, sem er 34 ára, hefur verið án félags síðan í sumar. Hann þekkir vel til á Ítalíu en hann varð fjórum sinnum Ítalíumeistari með Juventus á árunum 2015 til 2019.
Þá varð Króatinn Evrópumeistari með Bayern München árið 2013 en hann hefur einnig leikið með Atlético Madrid á Spáni. Mandzukic skoraði í úrslitaleik HM er Króatía tapaði fyrir Frakklandi 2018.