Hinn 18 ára gamli Mikael Egill Ellertsson átti afar góðan leik og skoraði tvö mörk fyrir varalið SPAL í 5:0-útisigri á Frosinone í bikarkeppni varaliða í ítalska fótboltanum í dag.
Leikurinn var sá fyrsti í þrjá mánuði hjá liðinu en Mikael skoraði annað mark SPAL á 47. mínútu og þriðja markið á 51. mínútu. Með sigrinum tryggði SPAL sér sæti í 16-liða úrslitum þar sem liðið mætir Empoli.
Mikael Egill kom til SPAL frá Fram fyrir tveimur árum en hann lék átta leiki með Fram í 1. deild áður en leiðin lá til Ítalíu. Hann hefur skorað þrjú mörk í 26 leikjum með yngri landsliðum Íslands.