Knattspyrnukonan Alexandra Jóhannsdóttir er á leið til Eintracht Frankfurt í þýsku 1. deildinni en hún hefur leikið með Breiðabliki undanfarin þrjú tímabil.
Fótbolti.net greindi fyrstur miðla frá þessu en Alexandra hefur verið sterklega orðuð við félög í Þýskalandi að undanförnu.
Hún verður þriðji leikmaðurinn sem lék með Íslandsmeisturum Breiðabliks á síðustu leiktíð til þess að semja við lið í Þýskalandi en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er gengin til liðs við Bayern München og Sveindís Jane Jónsdóttir samdi við Wolfsburg milli jóla og nýárs.
Eintracht Frankfurt er í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar með 17 stig eftir tólf umferðir, 8 stigum frá sæti í Meistaradeildinni.
Alexandra, sem er einungis tvítug, hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með Breiðabliki og einu sinni bikarmeistari.
Hún er uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði en hún á að baki 67 leiki í efstu deild með Haukum og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 28 mörk. Þá á hún að baki 10 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað tvö mörk.