Ögmundur Kristinsson landsliðsmarkvörður í knattspyrnu fékk langþráð tækifæri í marki grísku meistaranna Olympiacos í kvöld.
Olympiacos keypti Ögmund af Larissa síðasta sumar en þá hafði hann spilað 62 af 63 leikjum liðsins í grísku úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabil.
Í vetur hefur hann hinsvegar ekkert spilað, þar til í kvöld að hann varði mark Olympiacos þegar liðið vann Panetolikos 3:0 á útivelli í sextán liða úrslitum grísku bikarkeppninnar. Ögmundur hélt því markinu hreinu í sínum fyrsta leik.