Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er í liði ársins hjá evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA, en það voru stuðningsmenn í Evrópu sem stóðu á bak við kjörið.
Kosning í lið ársins fór fram á vef UEFA en Sara varð Evrópumeistari með Lyon á síðustu leiktíð, ásamt þvi að vera Þýskalandsmeistari og bikarmeistari með Wolfsburg.
Leikmenn Evrópumeistara Lyon eru í miklum meirihluta í liðinu eða sex talsins en ásamt Söru eru þær Sarah Bouhaddi, Kadeisha Buchanan, Wendie Renard, Amandine Henry og Delphine Cascarino allar í liðinu.
Þá er besta knattspyrnukona heims árið 2020 einnig í liðinu, Lucy Bronze, en hún varð Frakklands-, Evrópu-, og bikarmeistari með Lyon á síðustu leiktíð áður en hún gekk til liðs við Manchester City í september.
„Sara var í lykilhlutverki með Wolfsburg í Þýskalandi áður en hún gekk til liðs við Lyon í júlí,“ segir í umfjöllun UEFA.
„„Hún varð Evrópumeistari með Lyon og tók sæti Amandine Henry í byrjunarliði í úrslitaleiknum eftir að Henry meiddist.
Hún skoraði þriðja mark Lyon og gulltryggði þar sem sigurinn en hún fór einnig fyrir liði Íslands sem tryggði sér sæti í lokakeppni EM á árinu, ásamt því að vera kosin íþróttamaður ársins,“ segir ennfremur í umfjöllun UEFA.