Knattspyrnumaðurinn Ragnar Sigurðsson er mættur til Úkraínu þar sem hann vonast til þess að núllstilla sig eftir erfitt ár í Danmörku.
Miðvörðurinn, sem er 34 ára gamall, skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið við úrvalsdeildarlið Rukh Vynnyky frá borginni Lviv en liðið er í tólfta og þriðja neðsta sæti deildarinnar með 9 stig, stigi frá fallsæti.
Ragnar kemur til Rukh Vynnyky frá FC Kaupmannahöfn en varnarmaðurinn á að baki farsælan atvinnumannaferil í Svíþjóð, Danmörku, Rússlandi og Englandi en hann hélt út í atvinnumennsku árið 2007 frá uppeldisfélagi sínu Fylki.
„Mér líst virkilega vel á þessi skipti til Úkraínu þar sem ég þekki þjálfarann Ivan Fedyk mjög vel eftir að hafa unnið með honum hjá Krasnodar í Rússlandi á sínum tíma,“ sagði Ragnar í samtali við Morgunblaðið en Fedyk var aðstoðarþjálfari Krasnodar þegar Ragnar lék með liðinu frá 2014 til 2016.
„Það var hann sem fékk mig hingað og það hefði í raun aldrei komið til greina hjá mér að fara til Úkraínu ef hann væri ekki að þjálfa hérna. Hann kom liðinu upp í efstu deild á síðasta vetur og þegar þú ert nýliði í efstu deild er markmiðið fyrst og fremst að halda sæti sínu í deildinni. Mér fannst það ótrúlega skemmtileg áskorun að koma hingað og hjálpa honum og liðinu í því. Ég er búinn að mæta á nokkrar æfingar hjá félaginu og það eru miklir hæfileikar í leikmannahópnum. Strákarnir hérna eru mjög teknískir og ég er virkilega spenntur fyrir framhaldinu.
Klúbburinn vonast til þess að geta nýtt þá reynslu sem ég hef inni á vellinum sjálfum en maður er kannski ekki að fara bregða sér í eitthvert sérstakt leiðtogahlutverk í klefanum sjálfum þar sem ég tala ekki tungumálið. Persónulega hef ég aldrei litið á sjálfan mig sem einhvern svakalegan leiðtoga í klefanum enda ekki eitthvað sem ég hef pælt mikið í í gegnum tíðina. Fyrir mér hefur þetta alltaf bara snúist um það að skila sínu á vellinum og ég er kominn hingað til Úkraínu til þess að gera akkúrat það,“ bætti Ragnar við.
Viðtalið í heild sinni má sá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.