Ari Freyr Skúlason átti góðan leik og lagði upp sigurmarkið þegar lið hans Oostende vann frábæran 2:1 útisigur gegn Antwerpen í belgísku A-deildinni í knattspyrnu í kvöld.
Heimamenn í Antwerpen komust yfir á 15. mínútu þegar Pieter Gerkens skoraði. Á 35. mínútu jafnaði Fashion Sakala metin og var staðan 1:1 í hálfleik.
Undir lok leiks, á 85. mínútu, skoraði Marko Kvasina eftir undirbúning Ara Freys og tryggði Oostende öll stigin þrjú.
Ari Freyr lék allan leikinn í vinstri vængbakverði í 3-5-2 kerfi Oostende.
Oostende er í harðri Evrópubaráttu og komst upp í 5. sæti belgísku A-deildarinnar með sigrinum og er með 35 stig eftir 23 leiki.
Antwerpen er í þriðja sæti með 37 stig og því var sigur Oostende ekki síst mikilvægur hvað það varðar að saxa á forskot þeirra.