Knattspyrnumaðurinn Alfreð Finnbogason er allur að koma til eftir meiðsli sem hann varð fyrir um jólin en hann kom inn á sem varamaður í 2:1-sigri Augsburg á Union Berlín í þýsku 1. deildinni í dag. Alfreð hefur nú komið við sögu í þremur leikjum Augsburg í röð.
Íslenski landsliðsmaðurinn missti af fjórum leikjum liðsins vegna meiðsla sem hann varð fyrir í desember en hann byrjaði á varamannabekknum í dag og kom inn á 82. mínútu. Staðan var þá þegar orðin 2:1 fyrir Augsburg sem vann sinn sjötta deildarsigur í röð og batt enda á þriggja leikja taphrinu.
Þetta var 100. deildaleikur Alfreðs með Augsburg og hann er fjórði Íslendingurinn sem spilar hundrað leiki í þýsku 1. deildinni. Hinir eru Eyjólfur Sverrisson (250), Atli Eðvaldsson (224) og Ásgeir Sigurvinsson (211).
Augsburg er í 11. sæti með 22 stig eftir 18 umferðir og tókst að lyfta sér aðeins frá botnbaráttunni með sigrinum í dag. Union Berlín er í 8. sæti með 28 stig en á toppnum eru Þýskalandsmeistarar Bayern München með 39 stig.