Albert Guðmundsson lagði upp mark í mikilvægum 3:2-útisigri AZ Alkmaar gegn Feyenoord í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Albert spilaði sinn þriðja leik í röð fyrir AZ Alkmaar eftir að hafa verið úti í kuldanum.
Albert var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn á hægri kantinum en hann lagði upp fyrsta mark leiksins á 10. mínútu sem Svíinn Jesper Karlsson skoraði. AZ Alkmaar vann svo að lokum 3:2-sigur og fór upp fyrir Feyenoord og í 4. sæti deildarinnar. Albert og félagar eru þar með 37 stig, sjö stigum á eftir toppliði Ajax eftir 18 umferðir.