Skoskar kempur minnast „Big Shuggie“

Jóhannes Eðvaldsson var hluti af liði Celtic sem varð skoskur …
Jóhannes Eðvaldsson var hluti af liði Celtic sem varð skoskur meistari 1979. Ljósmynd/Celtic

Jó­hann­es Eðvalds­son, fyrr­ver­andi landsliðsfyr­irliði og at­vinnumaður í knatt­spyrnu, er lát­inn, 70 ára að aldri, og hafa margir af fyrrverandi liðsfélögum hans hjá skoska stórliðinu Celtic minnst hans á samfélagsmiðlum í kvöld.

Jóhannes gerði garðinn frægan með Celtic á árunum 1975 til 1980. „Búbbi“ eins og þáverandi landsliðsfyrirliðinn var jafnan kallaður, var vinsæll hjá stuðningsmönnum Celtic sem kölluðu hann „Big Shuggie“. Hann lék 188 leiki með Celtic og skoraði 36 mörk og þar af voru 127 leikir og 24 mörk í úrvalsdeildinni. Celtic varð Evrópumeistari fyrst breskra liða átta árum áður en hann gekk til liðs við félagið. Búbbi varð tvisvar meistari og tvisvar bikarmeistari með Celtic, og þá hóf hann ferilinn þar í ágúst 1975 með því að skora sigurmarkið gegn Englandsmeisturum Derby County, 1:0, í uppgjöri meistaraliða grannþjóðanna á Bretlandseyjum.

„Afar leiðinlegt að heyra að Jóhannes „Big Shuggie“ Eðvaldsson er fallinn frá. Hann var mikilvægur hlekkur í Celtic liðinu sem lagði Rangers að velli 4:2 og varð skoskur meistari 1979. Hugur minn er hjá fjölskyldu hans,“ skrifaði fyrrverandi liðsfélagi hans, Murdo Macleod, á Twitter í kvöld.

„Verulega leiðinlegt að heyra að hinn mikli maður Jóhannes Eðvaldsson er farinn frá okkur. Hann reyndist mér ótrúlega vel árið sem ég kom til Celtic,“ skrifaði svo markvörðurinn fyrrverandi Packie Bonner sem lék allan sinn feril í marki Celtic og spilaði næstum 500 leiki fyrir liðið yfir tuttugu ára tímabil.

Bonner var landsliðsmarkvörður Íra árum saman og varði mark liðsins þegar Írland komst í 8-liða úrslit á HM 1990. Varði þá vítaspyrnu í vítaspyrnukeppni gegn Rúmeníu í 16-liða úrslitum sem kom Írum áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert