Zlatan Ibrahimovic bað liðsfélaga sína í AC Milan afsökunar eftir að hafa verið rekinn af velli í grannaslagnum gegn Inter í ítölsku bikarkeppninni í knattspyrnu í gærkvöld.
Hinn 39 ára gamli Zlatan kom AC Milan yfir í leiknum en fékk síðan sitt annað gula spjald snemma í seinni hálfleik eftir að hafa brotið á Aleksandar Kolarov. Það fyrra fékk hann fyrir að rífast við Romelu Lukaku í fyrri hálfleiknum.
Stefano Pioli, knattspyrnustjóri AC Milan, sagði að liðsmunurinn hefði gert útslagið um að leikurinn tapaðist en vildi ekki gagnrýna Zlatan í viðtölum eftir leikinn.
„Seinna gula spjaldið fékk hann þegar hann ætlaði að hjálpa liðinu að verjast. Hann hefði getað farið varlegar í návígið en svona lagað gerist. Hann bað okkur alla afsökunar í búningsklefanum eftir leikinn,“ sagði Pioli.