Zlatan Ibrahimovic, framherji ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna atviks sem átti sér stað í leik Inter Mílanó og AC Milan í átta liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í Mílanó gær.
Upp úr sauð undir lok fyrri hálfleiks þegar Romelu Lukaku, framherja Inter, og Zlatan lenti saman en þeir rifust eins og hundur og köttur á vellinum áður en þeir fengu báðir að líta gula spjaldið fyrir atvikið.
Zlatan fékk svo að líta sitt annað gula spjald snemma í síðari hálfleik og var rekinn af velli.
Svíinn var sakaður um kynþáttafordóma í garð Lukaku og greindu ítalskir fjölmiðlar frá því að Zlatan hefði látið niðrandi ummæli um móður Lukaku falla.
Mikið hefur verið rætt og ritað um atvikið á Ítalíu í dag en sjónarpsupptökur sína Zlatan kalla Lukaku múlasna í nokkur skipti.
Var Svíinn harðlega gagnrýndur fyrir ummælin en Lukaku svaraði honum fullum hálsi.
„Það er ekkert pláss fyrir kynþáttafordóma í heimi Zlatans,“ sagði Svíinn á Twitter.
„Við erum öll manneskjur og við erum öll jöfn. Við erum öll leikmenn, sumir betri en aðrir,“ bætti Svíinn við en leiknum lauk með 3:2-sigri Inter sem mætir annaðhvort Juventus eða SPAL í undanúrslitum.