Fengu báðir bann

Zlatan Ibrahimovico og Romelu Lukaku rífast í grannaslag Mílanó-liðanna á …
Zlatan Ibrahimovico og Romelu Lukaku rífast í grannaslag Mílanó-liðanna á dögunum. AFP

Zlatan Ibrahimovic, framherji AC Milan, og Romelu Lukaku, framherji Inter Milan, hafa báðir verið úrskurðaðir í eins leiks bann í ítölsku bikarkeppninni eftir að þeim lenti saman í leik liðanna í keppninni á dögunum.

Bönn bæði Zlatan og Lukaku koma þó til af hefðbundnum orsökum. Zlatan fékk annað gult spjald síðar í leiknum og þar með rautt, sem er sjálfkrafa eins leiks bann. Þá fékk Lukaku sitt annað gula spjald í keppninni, sem er sömuleiðis sjálfkrafa eins leiks bann.

Inter vann grannaslaginn 2:1 í átta liða úrslitum bikarkeppninnar og fengu bæði Zlatan og Lukaku gult spjald undir lok fyrri hálfleiks eftir heiftúðugt rifrildi.

Auk þess skoruðu þeir báðir í leiknum áður en Christian Eriksen skoraði sigurmarkið fyrir Inter á 7. mínútu uppbótartíma.

Zlatan gæti þó átt yfir höfði sér lengra bann ákveði ítalska knattspyrnusambandið að rannsaka ummæli hans í garð Lukaku betur.

Þar sem engir áhorfendur voru á leiknum mátti greina skilmerkilega hvað fór fram þeim í millum. Á meðal þess sem Zlatan sagði við Lukaku var: „Farðu að sinna þessu vúdú rugli þínu, asninn þinn.“

Hafa þessi ummæli verið fordæmd sem dæmi um kynþáttahatur. Zlatan gefur þó lítið fyrir það og sagði á Twitter-aðgangi sínum „Í heimi Zlatans er ekkert pláss fyrir kynþáttahatur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert